Matvælaframleiðsla á Íslandi – möguleikar og takmarkanir – seinni hluti

Höfundur: Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni.

Í fyrri hluta þessa pistils var umfjöllunarefnið framboð matvæla á Íslandi þar sem fram kemur að hvað innviði varðar er ekki mikið því til fyrirstöðu að hér á landi séu framleidd öll þau matvæli sem landsmenn þurfa án þess að sjálfbærni náttúruauðlinda sé ógnað. Áskoranir liggja helst í takmarkaðri fjölbreytni matvæla. Einnig þarf að huga að mikilli aukningu á fjölda ferðamanna hingað til lands en fjöldinn tvöfaldaðist á árunum 2010-2014. Aukinn fjöldi ferðamanna krefst aukinnar framleiðslu og innflutningi á matvælum, en einnig má búast við því að neyslumynstur séu á einhvern hátt ólík okkar Íslendinga.

Í þessum seinni hluta er til skoðunar hin hliðin á framboði matvæla, eftirspurnin.

Hindranir fyrir neyslu matvæla

Hindranir fyrir aukinni neyslu staðbundinna matvæla snúa að menningu okkar og persónulegum gildum. Í því skyni að skoða tengingu undirliggjandi gilda við kauphegðun var stuðst við hluta af könnun sem Matís lagði fyrir meðal erlendra og innlendra ferðamanna en könnunin var hluti af verkefninu Matur og sjálfbær ferðaþjónusta. Verkefnið var styrkt af Tækniþróunarsjóði og Nýsköpunarsjóði námsmanna  og var markmið þess meðal annars að bera kennsl á hvað liggur að baki kauphegðun ferðamanna þegar kemur að matvælum og ástæður fyrir vali þeirra.

Könnunin var lögð fyrir 463 ferðamenn, 120 íslenska og 343 erlenda á tímabilinu júní-ágúst 2012. Spurt var um hvaða eiginleikar þættu mikilvægir fyrir staðbundin matvæli og hvaða viðhorf þátttakendur hefðu til staðbundinna matvæla sem þeir höfðu aðgang að. Spurt var viðhorf þátttakenda til matvæla á Íslandi almennt, en einnig sértækari þætti eins og að framleiðsluhættir væru umhverfisvænir, að matarmílur væru færri, að kolefnisspor vörunnar væri minna og að framleiðslan styddi við bændur í nærumhverfi. Einnig var spurt um matvæli beint frá býli, lífrænt ræktuð matvæli og matvæli ræktun á sjálfbæran hátt.

Niðurstöður könnunar Matís gefa sterklega til kynna að þátttakendur treystu íslenskum matvælum og teldu þau heilsusamleg og örugg. Neytendur telja mikilvægt um matvæli almennt að gæði þeirra séu mikil og einnig að verð sé samkeppnishæft. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að neytendur séu meðvitaðir um mikilvægi þess að framleiðsla matvæla styðji við bændur í nærumhverfinu og að varan hafi ekki ferðast langa leið, sem og að framleiðsluhættir séu umhverfisvænir og kolefnisspor sé lítið. Öllu færri svöruðu því þannig til að matvaran sem þeir hafa aðgang að komi beint frá býli, sé framleidd með sjálfbærum hætti eða sé lífrænn.  Niðurstöður þessar gefa til kynna að neytendur séu almennt meðvitaðir um mikilvægi sjálfbærni í matvælaframleiðslu, en síður sannfærðir um að matvælin sem standi þeim til boða standi undir þeim kröfum. Viðhorf sem þessi eru mögulega til þess fallin að skapa réttlætingu á því að kaupa ekki staðbundin matvæli, þrátt fyrir að meðvitund sé til staðar um að slíkt val sé betra í bæði samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.

Framboð og eftirspurn matvæla á Íslandi

Samandregið eru ekki til staðar augsjáanlegar takmarkanir fyrir aukinni matvælaframleiðslu á Íslandi hvað varðar framleiðslu á nægjanlegu magni matvæla án þess að umhverfisgæðum sé ógnað. Helstu hindranir í framleiðslu felast í skorti á fjölbreytni í framleiðslu, en þessi þáttur tengist einnig eftirspurn eftir staðbundnum matvælum þar sem líklegt má teljast að einsleitni í fæðuframboði sé ekki til þess fallið að hvetja til þess að staðbundin matvæli séu valin fram yfir innflutt.

Hvað varðar hindranir fyrir aukinni neyslu á staðbundnum matvælum á Íslandi þá er til staðar sóknarfæri þar sem neytendur treysta því að íslensk matvæli séu örugg og holl. Einnig er almenn meðvitund til staðar um tengsl staðbundinna matvæla við jákvæð samfélagsleg og umhverfisleg áhrif. Neytendur eru þó ekki sannfærðir um að framleiðsluhættir á Íslandi séu með sjálfbærum hætti og það er hindrun fyrir aukinni neyslu, en hindrun sem vel má vinna með.

Óháð viðhorfum neytenda á Íslandi þá liggur beint við að huga að auknum framleiðslumöguleikum á korni, enda fer megnið af innfluttu korni hingað til lands í skepnufóður. Þetta er umhugsunarefni þegar horft er til þess að ræktun kornvara til manneldis er mun skilvirkari leið heldur en ræktun til skepnuhalds sem eru svo notaðar til manneldis. Það er einnig umhugsunarefni hvað varðar fæðuöryggi að þeir matvælaflokkar sem eru að mestu leyti framleiddir hér á landi í dag, kjöt og mjólkurvörur, séu jafn háðir innflutningi á korni og raun ber vitni.

Pistillinn byggir á ritrýndri grein í opnum aðgangi og þar má finna ítarefni og heimildir.

Halldórsdóttir & Nicholas (2016) Local food in Iceland: identifying behavioral barriers to increased production and consumption. Environmental Research Letters, Vol. 11, no 11.

Iopscience hér