Eldstöðin Hekla

Mynd: Mats.is – Heklugos 1970

Höfundur: Vilborg G Hansen, landfræðingur

Nú í ár eru liðin 70 ár síðan Hekla gaus einu mesta gosi sínu en það hófst þann 29.mars 1947.  Er það gos talið stærstu eldsumbrot á Íslandi á 20.öldinni en þá hafði Hekla ekki gosið í heil 102 ár.  Eldfjallið Hekla sem hefur gosið reglulega í nokkra áratugi og gos hennar kölluð túristagos er hvorki saklaus né hættulaus.  Hekla er ein af virkustu megineldstöðum landsins ásamt Kötlu og Grímsvötnum, en hún er staðsett við jaðar eystra gosbeltisins á Suðurlandi.  Virknin er á 5 km sprunguröð NA-SV stefnu, en þar hefur gosið margoft og byggst upp eldhryggur ofan á móbergssökkul.  Forsaga Heklu nær aftur á síðasta jökulskeið og telst því ungt eldfjall í núverandi mynd.  Meginhluti núverandi fjalls er líklega yngri en 2500-7000 ára gamall.  Hekla sést víða af Suðurlandsundirlendinu sem og af miðhálendinu.  Fyrrum var Hekla oftast nefnd Heklufell eða Heklufjall.  Hekla rís hátt í þykkri jarðskorpu Suðurlandsbrotabeltisins með tíðum stórum skjálftum og margræðru spennusviði og mætir síðan ungu Suðurlandsgosbeltinu.  Fjallið stendur þannig við mót landsvæða með þrennskonar einkennum þ.e. virku þverbrotabelti með stórum skjálftum á, víkjandi jarðgosabelti og rekbelti í framrás.  Heklugjáin ristir fjallið endilangt með mörgum aðskildum gígum.  Mest ber þó á efsta gígnum þ.e. Toppgíg sem talinn er vera frá árinu 1947 og Axlargíg frá sama tíma.  Fjallið er keilulaga og hefur byggst upp úr mörgum hraun- og gjóskulögum en neðst er móbergssökkull og glittir þar í ísaldarmyndunina í norðvesturhlíðinni er kallast Litla-Hekla.

Hekla hefur verið virk frá fyrri hluta nútíma og eingöngu framleitt basalthraun á þeim tíma.  Heklugos hefjast nánast fyrirvaralaust en jarðvísindamenn fylgjast vel með fjallinu.  Árið 2000 spáðu þeir gosi með um klukkustundar fyrirvara þegar merki komu fram á mælum.  Kvikuhólf fjallsins er talið vera á nokkurra km dýpi.  Heklugos hafa oft valdið tjóni sérstaklega eftir langt goshlé.  Slíkt gerðist bæði árin 1104 og 1158 þegar ljós askan og vikurinn dreifðust í miklu magni yfir þúsundir km2 svæði.  Gos Heklu hafa þannig valdið gróðureyðingu, dauða búfjár, lagt jarðir í eyði og valdið manntjóni.  Byggðasaga í nágrenni Heklu er um margt ókunn en þó undanfarna áratugi hefur verið býli næst fjallinu efst í Landssveitinni t.d. Galtalækur, Skarð og Leirubakki.  Hinum megin Rangár eru svokallaðir Heklubæir þ.e. Næfurholt og Selsund.  Vitað er um allt að tugi nafngreindra bæja frá Þjórsárdal yfir á Rangárvelli sem horfið hafa undir hran eða lagst í eyði.

Erlendis er fyrst getið um Heklu í kvæði um siglingu heilags Brendans en það er talið ort árið 1120.  Einnig í ritinu Furður heimsins (Liber Miraculorum) eftir Herbert Kappellán í lairvaux-klaustri frá árinu 1180.  Í Flateyjarannál er sagt frá Heklugosi 1341.  Á miðöldum verður svo til sögnin um Heklu sem inngang Vítis og jafvel sjálft Víti.  Margir fræðimenn hafa ritað um Heklu í áranna rás eins og Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, ýmsir erlendir vísindamenn, Þovarldur Thoroddsen og einnig Ari Trausti Guðmundsson í bók sinni Íslenskar eldstöðvar.  Í bókinn er lýsing Odds bónda á Þúfu í Landssveit þegar Heklugosið 1945 hófst.

„En er ég hafði litla hríð að því staðið kom brestur þessi hinn ógurlegi, þá fór hryllingur um mig allan eða sem kallast „rann kalt vatn milli skinns og hörunds“.  Svo hnykkti mér við en hundurinn stökk æpandi og rann heim til bæjar, svo varð hann hræddur.  Þá flúðu allir fullorðnir hundar af Upplandinu suður Holt og komu ekki aftur fyrr en að vikufresti.  Nú var orðinn svo heiður himinn að fjallið sást og eldsbálið er upp gaus að vestanverðu í því.  Var það ofarlega í gili því sem er þar í fjallinu.  Sló bálinu langt í loft upp en þegar rökkvar tók sást rás eldflóðsins niður eftir téðu gili og niður í dalverpi nokkurt er var fyrir neðan fjallið og hafði hraunflóðið þar staðar numið og fyllt upp dalverpið og gaus þar upp bál mikið er stansinn varð á því.  En handan við toppinn brunnu 2 eldar eigi minni en þessi og kom öskumökkurinn þaðan.  Sáu menn glöggt glóandi grjóthríðina þjóta í loft upp á ýmsa vegu út úr eldsbálinu sem óbráðin stórbjörg munu verið hafa“

Mynd: Vilborg G Hansen – Heklusandar 2013

Efnasamsetning kvikunnar í Heklu er allt frá rhýóliti að basaltísku andesíti og stundum blandast þetta í sama gosinu.  Þannig verð gjóskulögin oft tvílit og jafnvel marglit allt eftir hlutföllum.  Eftir því sem lengra líður frá gosi verður kvikan súrari.  Heklugos hefst venjulega með þeytigosi og gjóskuframleiðslu en enda síðan sem flæðigos með hraunrennsli.  Í byrjun stóru gosanna er þekkt að upp kemur súr kvika þ.e. rhýólít, en ísúr basaltísk andesít þegar líður á gosin.  Minni þeytigos hafa síðan komið upp á milli stórgosa.  Tímaröð stórgosa í Heklu eru fyrir rúmum 7.000 árum, 4200, 3.900 og 3.000 árum síðan.  Á sögulegum tíma eru hins vegar þekkt 18 gos þar.  Tímaröð þeirra er árin 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1510, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1991 og árið 2000.  Öll þessi gos hófust með þeytigosi og var fyrsta kvikan missúr eftir tímalengt frá síðasta gosi.  Í gosinu 1104 hins vegar kom eingöngu upp súr gjóska líkt og í stórum forsögulegum gosum.  Þegar gaus árið 1947 í Heklugjánni stóð gosið í 13 mánuði með miklu hraunrennsli og gjóskufalli.   Eftir það stórgos virðist goshegðun Heklu hafa breyst og urðu eftir það minni og regluleg gos frá 1970.

Eins og áður sagði var gosið 1947-1948 eitt mesta gos Heklu en það hófst þann 29.mars 1947.  Gosið stóð með hléum undir sumar 1948.  Jóhann G. Guðnason í Vatnahjáleigu í Austur Landeyjum skráði dagbók um gosið og sendi Veðurstofu, sem gefin var síðar út í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar.  Vatnahjáleiga var í 45 km fjarlægð fjallinu en Jóhann ritar á upphafsdegi gossins svo:

29.mars 1947
„Fyrst í morgun var að heyra þungan nið frá Heklu sem síðan eða um kl.8 breyttist í samfelldar háværar drunur og dynki er ágerðust er á daginn leið, og sleit aldrei í sundur.  Loftþrýstingur var mikill.  Óþéttar rúður í útihúsum, svo og hurðir í fjósum glömruðu og skröltu allan daginn, og er mestu dynkirnir kváðu við mátti greina titring á húsum.  Um kl.8 féll smágerður vikur í nokkrar mínútur en síðan var dálítið öskufall til kl. 16:00.  Öskufallið mun hafa verið jafnfallið um 1.5 mm.“

Yngstu hraun Heklu sjást í hlíðum hennar og eru jafnan dekkst á lit.  Hin eldri eru hins vegar vel gróin mosa.  Víst er að Hekla mun gjósa á ný og hefur nú til að mynda verið óvenjulangt goshlé miðað við undanfarna áratugi.  Vel er fylgst með fjallinu og ítrekað hefur verið bent á að þensla er nú meiri í fjallinu og þrýstingur í kvikuhólfi en var fyrir síðustu gos bæði árið 1991 og 2000.  Hekla er þannig vel komin á tíma samkvæmt öllum mælikvörðum  Vonandi ná vísindamenn að spá fyrir um gos með fyrirvara en eins og áður segir er þekkt að Hekla gís með litlum sem engum fyrirvara og er hver uppá eigin ábyrgð þar á ferð.

Hægt er að fylgjast með fjallinu hér á vefmyndavél Mílu

Heimildir
Dagbók Fjölnis um Heklugosið 1947-48 hér
Bókin Íslenskar eldstöðvar eftir Ara Trausta Guðmundsson
Almannavarnir um Heklu hér

Fyrir áhugasama sem vilja kynna sér nánar íslensk eldfjöll má benda á bókina hans Ara Trausta Eldgos 1913-2011