Annáll sumarsins 2017

Mynd: Vilborg G Hansen – Grænagil í Landmannalaugum 2017

Nú er sumarfríi á Umhverfisfréttum lokið þetta árið en ýmislegt hefur gerst í sumar þó það hafi verið þokkalega rólegt framan af.  Engin eldgos á landinu ennþá þótt ekki sé hægt að útiloka neitt í nánustu framtíð eftir skjálftahrinur í júlí.  Litakóða Kötlu var breytt í gult þann 29.júlí eftir að stór skjálfti reið þar yfir og leiðni jókst mikið í Múlakvísl.  Menn voru þó ekki sammála um hvað væri þar á ferð eða hverju þessir skjálftar tengdust.   Í kjölfarið kom hlaup í Múlakvísl og fór betur en á horfðist.  Skjálftanhrinan á Reykjaneshrygg í júlí var nokkuð mikil við og í nágrenni Fagradalsfjalls og skalf jörð í Grindavík.  Eftir fyrstu stóru skjálftana þar voru nokkuð mismunandi fréttir um hvort við væri að búast einhverjum tíðindum eða ekki.  Við sem búum á Íslandi vitum að hér getur alltaf hafist gos og mörg okkar stærstu eldfjallakerfi eru komin á tíma.  Það er því kannski alveg við hæfi að vera alltaf viðbúinn og fara varlega á slóðum þar sem mikið er í gangi.  En auðvitað getum við ekki látið þetta stjórna öllu lífi okkar og setið og beðið eftir gosi eða stóra skjálfta.  Eitt er þó víst að með hverjum degi sem líður er deginu styttra í næsta gos!
Rakst á mjög góða yfirferð hér um hristing sumarsins.

En svona þegar litið er yfir sumarið þá tilkynnti Makron forseti Frakklands að dísel- og bensínbílar verði bannaðir þar í landi frá og með árinu 2040 en hann stefnir á kolefnislaust Frakkland árið 2050.  Á Íslandi er verið að huga að auknum sköttum á díselbíla á komandi árum.  Rafbílar á landinu hafa aukist til muna og má sjá fyrir sér aukinn áhuga á þeim eftir því sem innviðirnir byggjast upp.  Það er ljóst að gera þarf verulegt átak í slíku þegar kemur að því að fólk geti hlaðið slíkar bifreiðar við heimili sín í fjölbýlum í hverfum borgarinnar.  Nóg er af ljósastaurum út um alla borg, spurning hvort mætti nýta eitthvað af þeim leiðslum.  Þó er það jákvætt að umhverfisráðherra hefur tilkynnt að slíku beri að gera ráð fyrir í nýjum byggingum í nánustu framtíð.

Skólpmálið stóra í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem 750 lítrara af óhreinsuðu skólpi láku í fjöruna skók borgarbúa, borgarstjórn, Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur en þar bentu hver á annan þegar upp komst um atvikið.  Hvorki hafði verið mæld saurgerlamengun né mengunin tilkynnt lögum samkvæmt til íbúa og nærliggjandi sveitarfélaga.  Veitur virðast hafa tilkynnt Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um mengunina en þar með varð þögn um málið!   Margir sem voru á sjósundi og á ilströndinni í Nauthólsvík voru ekki paránægðir með þetta mál og er það vel skiljanlegt.

Mynd: Vilborg G Hansen – Bílar í Landmannalaugum 2017

Það má segja að flætt hafi skólpi um allt land bæði í borginni sem á landsbyggðinni því að á sama tíma héldu erlendir ferðamenn áfram að hægja á sér út um allar koppagrundir íslenskrar náttúru sem og nokkrir þeirra ákváðu að hægja á sér í sjálfum hallargarðinum í höfuðborginni. Skýringin var að engin salerni var þar að finna!   Það virðist fara þverrandi sá hæfileiki til að halda í sér og koma sér á salerni þó það sé í nokkur hundruð metra fjarlægð!  Á tímabili mátti heyra fréttir af því að landsmenn væru farnir að fyrra bragði að minna fólk sem keyrði um á sér útbúnum útleigubílum að létta ekki á sér úti í náttúrunni.  Það er síðan aftur glöggt merki um að ákveðnum þolmörkum heimamanna sé náð fyrir ákveðinni gerð ferðamanna.

Eitur- og olíumengunar varð vart í læk í Grafarvogi sem og í Varmá í Mosfellsbæ þar sem fiskar fundust dauðir, en slík mengun hefur komið upp á hvorum stað fyrir sig af og til.  Kom síðar í ljós að mengunin í Varmá var rekin til ógætilegrar meðhöndlunar klórs þegar fyrirtæki á svæðinu tæmdi heitan pott út í ánna.  Hvað mengunina varðar í læknum í Grafarvogi þá er helst talið að um sé að kenna ofanvatni eða regnvatni í niðurföllum í götum og á lóðum í nærliggjandi hverfum.  Veitur og borgin þurfa greinilega eitthvað að skoða þessi mál enda búið að vera svona allt of lengi án þess að gripið sé til alvöru ráðstafana.  Hefur verið nefnt að nauðsynlegt sé að byggja upp vatnsþró á þessum svæðum.  Einnig kom upp mengun í Elliðaánum og var sama uppi á teningnum þar.  Talið að um yfirfallsvatn væri að ræða mögulega frá þvottastöð í nágrenninu.

Jarðstrengir og rafspennulínur komu enn og aftur til umræðu en Landsnet segir nú allar nýjar lagnir nema á hæsta spennustigi lagðar í jörðu.  Það er jákvætt að heyra að stjórnvöld leggi til að hlutfall jarðstrengja fari úr 43% í að minnsta kosti 80% á næstu tveimur áratugum.  Spurning hvort sá tími þurfi ekki að styttast en sjáum til.  Samkvæmt drögum að nýrri þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda í uppbyggingu flutningskerfa raforku á að stefna á að lengd loftlína minnki og verði ekki eins sýnilegar í íslenskri náttúru.  Einnig verði þær að mestu fjarri friðlýstum svæðum og muni í framtíðinni ekki liggja um þéttbýlissvæði.

Hrakfarir United Silicon í Helguvík héldu áfram í sumar en í júlí kom þar upp eldur.  Það virðist lítið ætla að ganga upp hjá þessu ólánsama fyrirtæki og íbúar og stjórnvöld í Reykjanesbæ orðin verulega þreytt á ástandinu.  Nú síðast kom fram að fyrirtækið skuldaði Íslenskum aðalverktökum milljarð króna og áhöld væru um að fyrirtækið gæti greitt.  Það er ljóst en ekki er hægt að meta framtíð fyrirtækisins að svo stöddu.

Velkomin aftur á Umhverfisfréttir eftir sumarfrí og vonandi hafa allir notið sumarsins.

Ritstjóri