Samgöngur: Rafmögnuð framtíð með reiðhjólaívafi

Höfundur: Karl Benediktsson, landfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.

Orkuskipti í samgöngum eru stórt umhverfismál. Í Evrópu hafa mörg ríki sett fram metnaðarfull áform um að útrýma dísel- og bensínknúnum bílum á næstu árum og áratugum. Bretland og Frakkland hyggjast banna sölu slíkra bíla frá 2040. Og um síðustu mánaðamót vakti umhverfisráðherra Íslands nokkra athygli með yfirlýsingu um að rafbílavæðingu landsins skyldi lokið árið 2030. Ekki fannst öllum þetta raunhæf fyrirætlan, en látum það liggja á milli hluta. Rafbílar eru sannarlega komnir á dagskrá, á Íslandi sem annars staðar. Gott mál.

En hvaða vandamálum er rafbílum ætlað að leysa – og hversu líklegt er að þeir geti gert það? Fyrst og fremst er að sjálfsögðu litið til mögulegs hlutverks þeirra í baráttunni við loftslagsbreytingar. Frá þeim kemur ekkert koldíoxíð eða annar ófögnuður sem á þátt í að kynda upp jörðina. Þetta er mjög svo  gott og gilt – svo fremi sem rafmagnið sem þeir nota kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Í tilfelli Íslands er þetta borðleggjandi. Í löndum þar sem meginhluti rafmagns er (enn) framleiddur með kolum eða öðru jarðefnaeldsneyti er málið ekki alveg svona einfalt. Markmið um minnkun útblásturs nást að sjálfsögðu ekki nema með því að innleiða endurnýjanlega orkugjafa til raforkuframleiðslu. Sem mörg ríki eru auðvitað að reyna að gera af kappi, þótt víða miði fremur hægt.

Önnur markmið, tengd lýðheilsu, koma líka við sögu í rafbílavæðingunni. Loftgæði í borgum vega þar þungt. Sannað er að útblástur díselvéla er sérlega heilsuspillandi og pústið af bensínbílum er ekkert bráðhollt heldur. Þarna vakna samt ýmsar spurningar um rafbíla sem lausn. Bent hefur verið á að svifryksmengun, sem er vandamál í mörgum borgum ekki síður en útblástur, minnkar ekkert við það eitt að skipta um orkugjafa í bílnum. Áfram tætast upp agnir frá bremsum og dekkjum – og áfram rótar bíllinn upp ryki af götunni. Þetta þekkja Reykvíkingar allt of vel.

Sem sagt: Þrátt fyrir að hafa vissulega jákvæð áhrif á útblástur felur rafbílavæðing ein og sér ekki í sér neina grundvallarbreytingu á umferð í borgum. Né heldur tilkoma ökumannslausra bíla. Það sem flestir fræðimenn á sviði borgalandfræði og borgarskipulagsfræða telja að þurfi að eiga sér stað er einfaldlega að minnka umferð einkabíla! Uppbygging almennilegra almenningssamgangna er nauðsynlegur liður í þessu. Og svo má benda á tækninýjung sem kom fram þegar á 19. öldinni og flestir þekkja nokkuð vel, nefnilega reiðhjólið. Notkun þess góða samgöngutækis leysir ekki einungis útblásturvandann, heldur líka svifryksvanda og hávaðamengun, svo eitthvað sé nefnt. Færir notandanum einnig líkamlegan ávinning (og jafnvel andlegan) í kaupbæti. Áhersla á hjólreiðar er því sannarlega dæmi sem auðvelt er að reikna þannig að útkoman sé í plús!

Það ber kannski líka að nefna að mikil þróun er nú um stundir í rafhjólum. Hvernig væri að umhverfisráðherra beitti sér ekki einungis fyrir því að styrkja stöðu rafbíla heldur líka reiðhjóla – raf-og/eða vöðvaknúinna – í samgöngum á Íslandi? Værum við ekki þarna komin með alveg pottþétta uppskrift að rafmagnaðri framtíð – með reiðhjólsívafi?