Blikur á lofti, Ísland þarf að kaupa losunarheimildir. Lýðheilsumál ofarlega á baugi vegna loftmengunar

Mynd: Hugi Ólafsson – Umhverfisþing 2017

Umhverfisþing 2017 var haldið í Hörpunni þann 20.október s.l.  Loftslagsmálin voru þar í öndvegi enda orðið ljóst að Ísland þarf mögulega að kaupa losunarheimildir þar sem ekki verður hægt að standa við 2.tímabil Kyoto bókunarinnar frá 2013 til 2020.  Kyoto bókunin gerir ráð fyrir að Ísland losi 20% minna m.v. 1990 með ESB við lok samnings.  Eftir það tekur síðan Parísarsáttmálinn við frá 2021 til 2030 en hann gerir ráð fyrir að Ísland losi 40% minna með ESB og Noregi m.v. 1990.  Halldór Björnsson, sérfræðingur á Veðurstofu Ísland fjallaði um þær breytingar sem verða hérlendis þegar kemur að hækkun sjávarborðs.  Sólveig Rósa Ólafsdóttir, sérfræðingur á Hafrannsóknarstofnun fjallaði um súrnun og hlýnun hafs við Ísland.   Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar fór yfir það hvaða helstu losunarþættir væru á Íslandi, en þar standa hæst orka (vélar og tæki, jarðvarmavirkjanir, fiskiskip, vegasamgöngur), landbúnaður (meðhöndlun húsdýraáburðar, nytjajarðvegur og iðragerjun),  úrgangur ( meðhöndlun skólps, brennsla og jarðgerð, urðunarstaðir) og iðnaðarferlar (F-gös).  Langmesta losunin er vegna orku og landbúnaðar.  Talið er að heildarútstreymi án aðgerða muni líklegast aukast til ársins 2030 bæði miðað við útstreymi ársins 1990 og 2014.  Taldi Kristín Linda marga möguleika til að draga úr útstreymi ef farið væri í mótvægisaðgerðir sem sumar skila fjárhagslegum nettóábata.  Mótvægisaðgerðir sem þegar eru þróaðar geta dregið umtalsvert úr útstreymi í öllum geirum nema flokki stóriðju.  Taldi hún erfitt að ná 40% markmiði um heildarsamdrátt (nettó) útstreymi árið 2030 m.v. 1990 og mjög erfitt að ná kolefnishlutleysi nema frekari tækniþróun og framfarir í stóriðju ættu sér stað.  Án stóriðju er hvort tveggja hægt.  Nefndi hún að hægt væri að binda kolefni í skógrækt sem og landgræðslu.  Samdráttur virðist vera þegar kemur að úrgangi og samgöngum en aukning í öllum öðrum geirum nema sjávarútvegi m.v. 1990. Mest aukning er frá iðnaði og rafmagnsframleiðslu.  Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við HÍ og stjórnarformaður OR fjallaði um hvaða mótvægisaðgerðir væri hægt að fara í og nefndi helst göngur og hjólreiðar, hraðvagna, léttlest, sparneytnari bensín- og díselbíla, díselfólksbílar í stað bensínfólksbíla, íblöndun lífdísilolíu í dísilolíu, íblöndun alkóhóla í bensín, metanbíla, rafmagnsbíla og vetnisbíla.  Mismunandi kostnaður væri þó milli aðgerða og ýmis ávinningur yrði líka þ.e. ytri ábati, en fór ekkert nánar út í það.  Taldi hún einnig landgræðsu og skógrækt ásamt endurheimt votlendis mikilvægar mótvægisaðgerðir.  Taldi hún að samlegðaráhrif mótvægisaðgerða gætu orðið verulegar.

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna fjallaði um það sem neytendur geta lagt til og minnkað kolefnisfótsporið.   Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs Íslands fjallði síðan um framtíðarsýn og minnkun losunar til 2030.  Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku fjallaði um orkuskipti og hvaða ávinning það hefði í för með sér.  Nefndi hann sérstaklega orkuöryggi, galdeyrissparnað, bætta nýtingu innlendra orkugjafa og þar með verulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og rykagna í andrúmslofti.  Orkuskipti væru hagræðing fyrir orkukerfið og bætt auðlindanotkun.   Vistvæn tækni væri með mun betri nýtingu og til mikilla þæginda fyrir neytendur þegar kemur að því að þá væri engin mengun, enginn hávaði og skemmtilegri akstur eða sigling.   Fjallaði hann um hve mikilvæg innviðauppbygging stjórnvalda væri þegar kemur að rafbílavæðingu m.t.t. fjölgun hleðslustöðva, fjárfestingar í innviðum og nauðsynlegt væri að stjórnvöld legðu til fjármagn í uppbyggingu.  Sem betur fer virðist hugarfarsbreyting vera að verða þegar kemur að aðilum sem gera út skipaflotann.

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir, sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun fjallaði um loftgæði og lýðheilsu.  Kom fram í hennar erindi að heilsufarsleg áhrif efna sem fara út í andrúmsloftið eins og gastegundirnar brennisteinsoxíð (SO2), nituroxíð (NO2) og óson (O3) eru meðal annars: astmaeinkenni, lungnabjúgur og bólgur í öndunarfærum, hjartsláttartruflanir og hærri blóðþrýstingur.  Einnig eru auknar innlagnir á spítala vegna öndunarfærasjúkdóma einkum hjá börnum og eldri einstaklingum vegna nituroxíð í andrúmslofti, vegna hjartasjúkdóma og heilablóðfalla út af ósoni í andrúmslofti og hærri dánartíðni vegna hjarta- og lungnasjúkdóma, heilablóðfalla og krabbameina vegna nituroxíð í andrúmslofti.  Aukin styrkur brennisteinsvetnis (H2S) gæti leitt til hærri tíðni dauðsfalla vegna öndunarfærasjúkdóma, hærri tíðni krabbameina í öndunarfærum, fleiri innlagna og koma á spítala vegna hjarta-, tauga- og öndunarfærasjúkdóma.  Ekki eru þó allar rannsóknir sammála en rannsóknir frá Rotorua á Nýja-Sjálandi fundu ekki samband á milli brennisteinsvetnis og heilsufarsbrests þegar kom að taugasjúkdómum, vitrænni getu o.s.frv.  Hugsanlegar vísbendingar eru um verndandi eiginleika brennisteinsvetni þegar kemur að lungnasjúkdómum.

Markmið Umhverfisstofnunar er að fækka dauðsföllum um helming fyrir árið 2029.  Stofnunin vill innleiða loftgæðaupplýsingakerfi, að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gefi út viðbragðsáætlanir, innleiða nýja tilskipun um losunarmörk fyrir tiltekin efni og að embætti landlæknis hvetji til rannsókna.  Fækka þarf árlegum fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar eða úr 7-20 skiptum í núll fyrir árslok 2029.  Auka þarf álögur á notkun díselvéla, fara þarf fram tíðari rykbinding og hreinsun gatna og gera þarf fræðsluátak þar sem kynnt er að lausaganga bifreiða er bönnuð.  Ársmeðaltal brennisteinsvetnis (H2S) verði áfram undir skilgreindum mörkum og gerð verði þarfagreining á því hvort þurfi að setja skammtímamörk á brennisteinsvetni í andrúmslofti.  Gera þarf einnig þarfagreiningu á því hvort setja þurfi losunarmörk og/eða skattleggja losun á brennisteinsvetni frá jarðvarmavirkjunum.

Í lokin eru hér að neðan heimsmakmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun:

„Eigi síðar en árið 2030 verði fækkað umtalsvert dauðsföllum og veikindum af völdum hættulegra efna og loft-, vatns- og jarðvegsmengunar og smitunar“

„Eigi síðar en árið 2030 verði dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum borga á hvern einstakling, meðal annars með því að beina sérstakri athygli að loftgæðum og meðhöndlun sveitarfélaga á úrgangi og annars konar meðhöndlun úrgangs“

Á vef stjórnarráðsins er síðan hægt er að hlusta á hvert erindi fyrir sig af Umhverfisþinginu, smella hér