Eldkeilan Öræfajökull

Mynd: Oddur Sigurðsson, 10 sept 1986 – Öræfajökull

Höfundur: Vilborg G Hansen, landfræðingur

Um þessar mundir sýnir Öræfajökull nokkra virkni, en bæði hefur myndast ketill á yfirborði jökulsins sem bendir til jarðhita, en einnig kemur fram brennisteinslykt og leiðni í ánni Kvía sem rennur úr skriðjöklinum Kvíárjökli.  Jarðskjálftavirkni hefur farið stigvaxani í jöklinum undanfarið ár og nú þegar þetta er ritað hefur verið lýst yfir óvissustigi hjá Veðurstofu Íslands.

Öræfajökull er megineldstöð og jafnframt stærsta eldfjall landsins og hæsta fjall landsins, en gosið hefur þar tvisvar sinnum á sögulegum tíma.  Gosið 1362 þegar Litlahérað lagðist í eyði, en það er svæðið sem kallast Öræfi í dag.  Minna gos varð síðan árið 1727.  Bæði gosin ollu miklu tjóni og miklu öskufalli og jökulhlaupum.  Hér neðar má lesa lýsingu af þeim gosum.  Öræfajökull er svokölluð eldkeila en yfir fjallinu er jökulhetta þ.e. jökullinn sjálfur.  Jökullinn er syðsti hluti Vatnajökuls en margir skriðjöklar ganga út frá jökulhettunni m.a. Svínafellsjökull, Virkisjökull, Kotárjökull, Kvíárjökull og Hrútárjökull.  Í hlíð fjallsins í norðri er síðan hæsti tindur Íslands Hvannadalshnjúkur 2.119 m á hæð.

Snæfell, Esjufjöll og Öræfajökull mynda í raun samhangandi gosbelti sem er ekki að fullu kannað og raunar ekki mikið vitað um.  Megineldstöðin er að mestu hulin jökli.  Vitað er þó að langur tími líður á milli gosa úr jöklinum.  Staðfest hefur verið að allstór öskjuketill er falinn undir ísnum í jöklinum og talið er að gosvirkni tengist þykkt jökulsins þ.e. hvernig hann þykknar og þynnist.  Bæði Eyjafjallajökull og Öræfajökull eru eldkeilur en tvær aðrar slíkar eru hérlendis þ.e. Snæfellsjökull og Snæfell.  Hekla gæti svo mögulega talist með þessum flokki en hún er á mörkunum.  Öræfajökull hefur hlaðist upp á þykkri skorpu jaðargosbeltisins og rís hátt yfir umhverfi sitt.  Bergið er talið að mestu yngra en 780 þúsund ára en  sumt enn yngra.  Mest af því er talið hafa myndast á síðasta hluta ísaldar, en þá hlóðust upp syrpur af bólstrabergi, brotabergi og móbergi.  Á hlýskeiðum á milli jökulskeiðanna runnu þar hraun og gjóska lagðist yfir landið.  Gert er ráð fyrir kvikustreymi í jarðskorpunni undir öllum eldkeilunum.  Öræfajökull hefur verið flokkaður með eldfjöllum eins og Etnu á Ítalíu, Bereenberg á Jan Mayen, Ararat í Kakasusfjöllum og Teide á Kanaríeyjum svo eitthvað sé nefnt.  Grunnflötur Öræfajökuls er 18-20 km í þvermál og er rúmmálið áætlað um 250-300 km3.  Askjan sjálf er um 4-5 km að breidd og um 500 m djúp.  Í gosum flæðir í allar áttir þannig að jökulís skriður niður hlíðarnar.  Jökulhlaupin hafa átt þátt í myndun Skeiðarársands og hluta þeirrar flötu sandstrandar beggja vegna Ingólfshöfða.

Hjalti J. Guðmundsson landfræðingur rannsakaði fjallið á síðari hluta 20.aldar en þar skilgreindi hann nokkur forsöguleg gos og kannaði framskrið og hop skriðjöklanna einkum Kvíárjökuls.  Rúmum áratug síðar kannaði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðinur innviði jökulsins með mælingum á staðbundu þyngdarsviði.  Þær rannsóknir leiddu í ljós að mikið er um þung jarðlög norðan til í fjallinu, líklega er innskot úr djúpbergi og leifar kvikuhóls- eða hólfa.  Sunnar er mun minna innskot trúlega vegna þess að þar er myndun kvikuhólfs komið stutt á veg.  Sigurður Björnsson bóndi og fræðimaður frá Kvískerjum hefur síðan fært rök fyrir því að allstór keilulaga eldstöð hafi myndast sunnar í fjallinu síðla á ísöld og sprungið fram í miklu þeytigosi, mjög snemma á nútíma.  Kvíárjökull liggi nú þar í kleifinni sem varð til, en leifar eldstöðvarinnar sjást í undirhliðum jökulsins beggja vegna.

Kort frá LMI

Gossaga Öræfajökuls á nútíma skýrist verulega með niðurstöðum Hjalta J. Guðmundssonar á rúmum tug gjóskulaga auk gosanna 1362 og 1727 en hann skilgreinir 5-6 forsöguleg gos.  Það næstsíðasta fyrir um 1900 árum síðan og það síðasta fyrir um 1500 árum.  Hið fyrra var líklega lítið en í hinu síðara voru umbrotin svo mikil að því fylgdi jökulhlaup.  Ekki er ljóst hvar jarðeldurinn kom upp í fjallinu fyrir tíma byggðar.  Goshlé eru talin að meðaltali 600 ára löng það lengsta 950 ár en styðsta 365 ár.  Í gosinu 1727 skilaði Öræfajökull af sér andesíti og basalti og sjást þau öskulög í vegsniðum í Öræfum sem ekki eru úr Grímsvötnum né Kötlu.

Eldgosið 1362 flokkast með stærstu gjóskugosum heimsins undanfarið árþúsund.  Gosið 1362 var þeytigos og það stærsta sem orðið hefur á sögulegum tíma á landinu.  Í því gosi mynduðust 10 km3 af nýfallinni ösku og talið er að gjóskufall hafi fallið á um 75% landsins.  Í Litla-Héraði sem fór í eyði lifði engin af dýr eða menn utan ein kona sem minnst er á í Oddverjaannál.  Síðar þegar þessi sveit byggðist á ný fékk hún nafnið Öræfi.  Síðara gosið  varð fyrir 290 árum síðan eða árið 1727, en á milli þessara tveggja sögulegu gosa líða 365 ár.  Til samanburðar þá gýs að jafnaði í Eyjafjallajökli með 200-250 ára millibili.  Ef gos hefst nú í Öræfajökli má því segja að kynslóðin sem lifir í dag sé að upplifa mjög sögulega tíma með því bæði að hafa orðið vitni af gosi í Eyjafjallajökli og mögulega í nánustu framtíð í Öræfajökli.  Holuhraun sem upprunið er í Bárðarbungu er einnig sjaldgæf sýn og þau umbrot sem enn eru í Bárðarbungu.  Á sama tíma eru hræringar í Grímsvötnum og Kötlu.

Í bók Ara Trausta, Íslenskar eldstöðvar eru lýsingar á gosunum í Öræfajökli 1362 og 1727 sem fara hér á eftir.  Sú fyrri er af gosinu 1362 og nefnist „Með aur og saur“  og er úr Skálholtsannál.  Hin síðari er úr Ferðabók Ólafs Olavíusar þar sem fer frásögn Jóns Þorlákssonar um eldgosið 1727.

Aur og saur

„Eldar uppi á þremur stöðum fyrir sunnan og hélst það frá fardögum til hausts með svo miklum býsnum að eyddi allt Litlahérað og mikið af Hornafirði og Lónshverfi svo eyddi 5 þingmannaleiðir.  Hér með hljóp Knappafellsjökull fram í sjó þar sem áður var þrítugt djúp, með grjótfalli, aur og saur og urðu þar síðan sléttir sandar.  Tók og af tvær kirkjusóknir með öllu, að Hofi og Rauðalæk.  Sandurinn (þ.e.gjóskan) tók í miðjan legg á sléttu en rak saman í kafla svo varla sá í húsin.  Öskufall bar norður um land svo að sporrækt var…“

Frásögn Jóns Þorlákssonar en hann var þá prestur að Hofi (frásögnin er skráð um hálfri öld eftir gosið og hefur Jóni þá farið að skjöplast á dögum

„Morguninn eftir, mánudaginn 8.ágúst (þ.e. 4.), fundu menn eigi aðeins tíða og ægilega jarðskjálftakippi en heyrðu einnig ógnarbresti sem ekki voru minni en þrumuhljóp.  Í þessum látum féll allt, sem lauslegt var í húsum inni, og var ekki annað sýnna en allt mundi hrynja, bæði húsin og fjöllin sjálf.  Húsin hrundu þó eigi.  En það jók mjög á skelfingu fólksins, að einginn vissi hvaðan ógnin mundi koma né hvar hún dundi yfir.  Klukkan 9 um morgunin heyrðust 3 miklir brestir, sem báru af hinum; þeim fylgdu nokkur vatnshlaup eða gos og var hið síðasta mest, sópuðu þau brott hestum og öðrum peningi, er fyrir þeim urðu, í einu vetvangi.  Þar á eftir seig sjálfur jökullinn niður á jafnsléttu líkt og þegar bráðnum málmi er hellt úr deiglu.  Hvar var svo hár, er hann var kominn niður á jafnsléttuna, að yfir hann sé ég eigi meira af Lómagnúp en á stærð við fugl.  Að þessu búnu tók vatn að fossa fram fyrir austan jökulinn og eyddi því litla, sem eftir var af graslendi.  Þyngst féll mér að horfa á kvenfólkið grátandi og nágranna mína ráðþrota og kjarklausa… Ástandið breyttist nú enn við það, að sjálfur jökullinn braust fram og bárust sumir jakarnir allt á sjö fram en hinir stærri stóðu rétt við fjallsræturnar.  Þessu næst fylltist loftið af eldi og ösku, með óaflátanlegum brestum og braki; var askan svo þétt, að engi sást munur dags og nætur af myrkri því, er hún olli; hið eina ljós, er sást var bjarminn sem upp var kominn í 5 eða 6 fjallskorum.  Í 3 daga var Öræfasókn þjáð á þennan hátt með eldi, vatni og öskufalli.  Þó er ekki létt að lýsa þessu eins og það í raun réttri var, því öll jörðin var svört af vikursandi, og ekki hættulaust að ganga úti sakir glóandi steina, sem ringdi úr loftinu, og baru því ýmsir fötur og kollur á höfðinu sér til hlífðar…“

Hægt er að fara hér á eldfjallasjá Veðurstofunnar smella hér

Heimildir:
Íslensk Eldfjöll eftir Ara Trausta Guðmundsson
Veðurstofa Íslands

Fyrir áhugasama sem vilja kynna sér nánar íslensk eldfjöll má benda á bókina hans Ara Trausta Eldgos 1913-2011