Óskað eftir tilnefningum til loftslagsviðurkenningar

Reykjavíkurborg og Festa óska eftir tilnefningum til loftlagsviðurkenninga sem verða veittar fyrirtækjum, félagasamtökum, stofnunum eða einstaklingum sem hafa lagt sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en Loftslagsfundur Festu og Reykjavíkurborgar verður haldinn þann 8. desember 2017 í Hörpu sjá nánar hér

Á fundinum verða loftslagsviðurkenningar veittar í fyrsta sinn en viðurkenningarnar verða veittar fyrirtækjum, félagasamtökum, stofnunum og einstaklingum sem hafa lagt sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Valið byggir á starfi þriggja manna dómnefndar: einn frá Festu, einn fulltrúi Reykjavíkurborgar og einn aðili frá Háskóla Íslands.  Dómnefndin byggir val sitt á árangri og aðgerðum sem fyrirtæki,félagasamtök, stofnanir eða einstaklingar hafa gripið til í þeim tilgangi að upplýsa og fræða um loftslagsmál, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og setja fram nýjar lausnir í loftslagsmálum.

Markmið viðurkenninganna er að vekja jákvæða athygli á því sem vel er gert í loftslagsmálum og vera hvatning til annarra.  Umsóknir og tilnefningar berist Reykjavíkurborg í síðasta lagi í lok dags 30. nóvember næstkomandi, merktar „Loftslagsviðurkenning2017“ á usk@reykjavik.is

Hafa má meðfylgjandi eyðublað til hliðsjónar við tilnefninguna.