Enn er óvissustig almannavarna í gildi vegna atburðarrásar í Öræfajökli

Mynd: Oddur Sigurðsson, 10 sept 1986 – Öræfajökull

Í gær þann 7.desember var haldinn fundur í vísindaráði almannavarna vegna hræringanna í Öræfajökli.  Á síðustu vikum hefur smáskjálftum sem mælst hafa í jöklinum frekar fjölgað og í síðustu viku mældust um 160 smáskjálftar.   Þetta er mesti fjöldi skjálfta sem mælst hafa í jöklinum en þeir eru aðallega dreifðir í og við öskuna í efstu 10 km jarðskorpunnar.  Nýjustu mælingar í sigkatlinum í öskju Öræfajökuls sýna að hann heldur áfram að dýpka og stækka í samræmi við viðvarandi aukna jarðhitavirkni og að vatn rennur áfram frá jöklinum.  Mælingar í Skaftafellsá, Virkisá, Kotá og Kvíá sýna óverulegar breytingar undanfarnar vikur.  Mælingar á leiðni og efnasamsetningu sýna að jarðhitavatn kemur fram í Kvíá.

Mælingar síðustu ára sýna smávægilegar færslur við suðurjaðar jökulssins.  Atburðarrás og mællingar benda til minniháttar kvikuinnskots á um 2-6 km dýpi.  Vöktun við Öræfajökul hefur verið aukin til muna á síðustu vikum og bætt hefur verið við vatnamælum, jarðskjálftamælum og síritandi GPS tæki auk nokkurra vefmyndavéla.  Einnig hafa rannsóknir á vettvangi verið auknar.

Atburðarrás í Öræfajökli er hafin en hún getur bæði minnkað og hætt alveg, en líka aukist og endað með eldgosi.  Atburðarrás sem þessi getur tekið langan tíma þó aldrei sé hægt að segja til með vissu þar sem ferlið getur líka tekið upp hraðari takt.  Fylgst verður mjög náið með Öræfajökli og áfram verður óvissustig vegna atburðarrásarinnar nú.  Áfram er stefnt að því að geta varað við eldgosi með nokkrum fyrirvara þó sá fyrirvari verði aldrei mjög langur.