Umhverfispennar

Umhverfispennar síðunnar koma víðsvegar að og eru með mismunandi þekkingu og menntun á bak við sig.  Pistlahöfundar bera ábyrgð á sínum skrifum og svara fyrir það efni sem þeir kjósa að skrifa um hverju sinni.

 
Ari Trausti Guðmundsson
Jarðeðlisfræðingur og fjölmiðlamaður
Cand. mag. í jarðeðlisfræði og jarðfræði frá Háskólanum í Oslo.

Framhaldsnám í jarðvísindum (1 ár) við Háskóla Íslands.
Ari Trausti Guðmundsson stundaði nám við Háskóla Íslands og í Osló, með áherslu á jarðeðlisfræði og jarðfræði.  Hann vann við rannsóknir, kennslu, leiðsögn og ferðaþjónustu til 1989. Eftir það hefur hann verið sjálfstætt starfandi og t.d. sinnt ýmis konar faglegri ráðgjöf, fyrirlestrum, umhverfismálum, landkynningu og kynningu á vísindum, ritstörfum og dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp, nú síðast með umsjón með þáttum um íslensk vísindi og nýsköpun. Ari Trausti hefur stundað margvísleg ritstörf, við blaðamennsku, þýðingar, stjórnmálaskrif og skáldskap. Eftir hann liggur á fjórða tug bóka um náttúruna, umhverfismál, ferða- og fjallamennsku, ásamt fjórum ljóðabókum, stuttsögusafni og fjórum skáldsögum. Ari Trausti hefur hlotið margs konar viðurkenningar og verðlaun, m.a. fyrir kynningu á vísindum (Rannís og Siðmennt).

Edward H. Huijbens
Prófessor við Háskólann á Akureyri
BSc í landfræði frá Háskóla Íslands
MA í landfræði frá Háskólanum í Durham á Englandi
PhD í landfræði frá Háskólanum í Durham á Englandi

Edward er landfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, sem rannsakar ferðamál á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Edward lauk BS prófi í landfræði frá Háskóla Íslands vorið 2000. Þar áður lauk hann leiðsögunámi við MK vorið 1998. Að loknu BS prófi fór hann til Englands og lauk meistaraprófi með ritgerð við landfræðideild Durham háskóla síðla árs 2001 og síðar doktorsritgerð í menningarlandfræði í upphafi árs 2006 við sama skóla. Samhliða því að ljúka skrifum á doktorsritgerð sinni starfaði Edward við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, sem og raunvísindadeild árin 2004-2006. Edward varð forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála sumarið 2006. Edward hefur gefið út fjölda fræðigreina innanlands sem og í alþjóðlegum fræðiritum og hefur ritstýrt fjórum bókum ásamt fleirum: Technology in Society/Society in Technology (2005, Háskólaútgáfan), Sensi/able Spaces: Space, art and the environment (2007, Cambridge Scholars Press), The Illuminating Traveller (2008, University of Jyväskylä). og Tourism and the Anthropocene (2016, Routledge). Hann gaf út bókina Ferðamál á Íslandi (Forlagið 2013) með Gunnari Þór Jóhannessyni og var hún tilnefnt til verðlauna Hagþenkis í flokki fræðibóka.

Esther Hliðar Jensen
Sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands
BSc í jarðfræði frá Háskóla Íslands
MSc eðlisrænni landfræði (landmótunarfræði) frá Victoria University of Wellington, Nýja Sjáland

Esther er annar ritstjóri Umhverfisfrétta og starfar á Veðurstofu Íslands sem aurburðarsérfræðingur og sérfræðingur í landupplýsingum. Esther hefur unnið með landupplýsingakerfi frá 1994 og verið virkur þátttakandi í mótun samfélags landupplýsingafræða. Hún situr m.a. í stjórn LÍSU samtakanna (Samtök um landupplýsingar á Íslandi) sem eru fagsamtök fjölda stofnanna, sveitarfélaga og einkaaðila á Íslandi ásamt því að sitja í Orðanefnd LÍSU samtakanna sem sér um útgáfu íðorðalista um landupplýsingaorð. Fyrir Veðurstofu Íslands hefur Esther unnið að ýmsum málum, m.a. gerð skriðuhættumats, vöktun snjóflóða, gerð stafræns vatnagrunns ásamt því að reikna aurframburð vatnsfalla. Í Eyjafjallajökulsgosinu 2010 vann Esther öskuspá og í framhaldi af því mat á hættu vegna eðjuflóða.

OLYMPUS DIGITAL CAMERAHjalti Jóhannes Guðmundsson
Skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg
B.Sc. í landfræði frá Háskóla Íslands.
M.S. í náttúrulandfræði frá Háskóla Íslands.
Ph.D. í náttúrulandfræði frá University of Edinburgh, Skotlandi.
Diploma í Opinberri stjórnsýslu og stjórnun.
MPA nemi í Opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands

Hjalti nam landfræði við Háskóla Íslands og stundaði framhaldsnám við Edinborgarháskóla í Skotlandi.  Í náminu lagði hann áherslu á landmótunarfræði jökla, gjóskulagafræði, loftslagsfræði og samskipti manns og náttúru.  Eftir nám starfaði hann fyrir Reykjavíkurborg sem verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 og síðar sem framkvæmdastjóri stefnumótunar og þróunar hjá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar.  þá lá leið hans til Umhverfisstofnunar þar sem hann starfaði sem sviðsstjóri sviðs náttúruauðlinda en undir það féll m.a. náttúruverndarmál og veiðistjórnun.  Hjalti hefur birt fjölda fræðigreina, almennra greina og fyrirlestra um rannsóknir sínar og störf á sviði umhverfismála í víðu samhengi.  Hjalti var í mörg ár formaður Félags landfræðinga og hefur setið í innlendum sem erlendum samstarfsnefndum um umhverfismál.  Hann starfar nú sem deildarstjóri á Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar þar sem hann stýrir rekstri og umhirðu á austursvæði borgarinnar.

Karl Benediktsson
Prófessor við Háskóla Íslands
B.Sc. í landfræði frá Háskóla Íslands.
M.A. í landfræði frá University of Auckland, Nýja-Sjálandi.
Ph.D. í mannvistarlandfræði frá Australian National University, Canberra, Ástralíu.
Pungapróf.

Karl er Hornfirðingur að uppruna en hefur alið manninn að mestu í Þingholtunum í Reykjavík, með skemmri búsetu á Nýja Sjálandi, Ástralíu og á Papúa Nýju-Gíneu. Hann lauk grunnámi í landfræði við Háskóla Íslands og framhaldsnámi í Eyjaálfu. Doktorsrannsókn hans fjallaði um breytingar á umhverfi og samfélagi með tilkomu markaðsframleiðslu meðal sjálfsþurftarbænda í fjallahéruðum Papúa Nýju-Gíneu. Hann hefur fengist við kennslu og rannsóknir á sviði mannvistarlandfræði og er nú prófessor við Háskóla Íslands. Orðræðan um ýmis umhverfismál í vísindum, stjórnmálum og meðal almennings er honum hugleikin. Meðal áhugasviða hans á þessu sviði eru landslag og náttúruvernd, sambúð fólks og (annarra) dýra, og tilflutningur plöntu- og dýrategunda á tímum umhverfisbreytinga. Hann er höfundur allmargra fræðigreina, bókarkafla og bóka. Karl stundar gjarnan gönguferðir og skak í frístundum.

Vilborg G Hansen
Ritstjóri Umhverfisfrétta
BSc í landfræði frá Háskóla Íslands
Dpl. Opinber stjórnsýsla
MPA ólokið – sérfræðingur í umhverfisstjórnun

Vilborg er eigandi og ritstjóri Umhverfisfrétta og lagði stund á nám í fjölmiðlun til stúdentsprófs.  Vilborg er menntuð sem landfræðingur með áherslu á skipulag og stefnumótun í ferðamálum.  Vilborg hefur látið sig varða umhverfismál út frá skipulagi ferðamála og áhrifum á heilbrigðis- og efnahagsmál sem og almenna umhverfisstjórnun.  Vilborg hefur starfað að útgáfumálum og gaf út meðal annars Ratkort sumarbústaða frá árinu 2000-2004 eða í 5 ár samfleitt.  Ratkort sumarbústaða voru gefin út á Suðurland, Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi.  Vilborg er einnig löggiltur fasteignasali og starfar sem slíkur.

Þórhildur Ósk Halldórsdóttir,
Deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg
BSc í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst.
MSc Environmental Studies & Sustainability Science við Lund Universitet í Svíþjóð

Þórhildur er BSc í viðskiptafræði með áherslu á lögfræði og siðfræði, sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Lokaverkefni í BSc námi fjallaði um áhrif stefnu í samfélagslegri ábyrgð á fyrirtækjamenningu. MSc í umhverfisfræði og sjálfbærni með áherslu á landnýtingu, landbúnað, stóriðju, orkumál og ferðaþjónustu. Lokaverkefni í MSc námi var greining á hindrunum fyrir aukinni framleiðslu á staðbundnum matvælum á Íslandi. Reynsla af stefnumótun í umhverfismálum, ráðgjöf á sviði sjálfbærni og markaðs- og neytendarannsóknum. Þórhildur starfar nú sem deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg og kemur að ýmsum greininga- og gagnamálum og grænni hagstjórn.